06 October 2014

Tími kominn til að staldra við?


Tilefni þessarra pistils er að velta því fyrir sér hvort að tæknin og hraði nútímans sé að hafa svo mikil áhrif á okkur sum, að við gleymum kannski því allra allra mikilvægasta.                                          

Já hvað er það mikilvægasta? 

Er það ekki að rækta gott samband við sína nánustu og umvefja börnin sín ást og umhyggju? Það vakti mig til umhugsunar að skoða samskipti barna og foreldra úr fjarlægð, annarsvegar á veitingahúsum og svo í barnadeild bókabúðar þar sem ég var stödd með stelpuna mína.
Í fyrra tilfellinu var það móðir sem sat við sama borð og um tveggja ára dóttir hennar, á kaffihúsi.    Ég segi sat við sama borð en ekki að hún hafi verið með dóttur sinni á staðnum. Hún var nefnilega fjarverandi - í Ipad, allan tímann sem ég sá þær þarna. Öðruhvoru staldraði hún við og fálmaði eftir skeið til að mata barnið, sem alls ekki vildi meira. Ég heyrði hana ekki segja eitt orð, svo upptekin var hún í spjaldtölvunni.  Stelpan var með tómlegt yfirbragð og sagði ekkert heldur. Eitt skiptið rölti hún í burtu og mamman tók ekki einu sinni eftir því. Nú veit ég ekkert um þessar mæðgur og vonandi er þetta einsdæmi í þeirra samskiptum, við skulum vona það.

En... afskiptaleysi á fyrstu æviárum barnsins sérstaklega, getur haft langvarandi og skaðleg áhrif. Það er nefnilega ekki nóg að sinna líkamlegum þörfum barna, þau þurfta heilmikla ást og stöðuga athygli og styrkingu frá okkur foreldrunum til að nærast andlega og verða sjálfstæðir og öruggir einstaklingar.

Hitt tilfellið var í bókabúðinni og það var aðeins skárra fyrir það barn, þar sem pabbinn var með þar og sinnti barninu en mamman var algjörlega fjarverandi í símanum pikkandi í þann hálftíma sem ég var þarna. Ég hef líka séð svona samskipti eða samskiptaleysi hjá pörum á veitingastöðum, pikkandi tómum augum og gleyma að tala saman....gleyma að lifa.

Við fullorðna fólkið lifum það af, kannski ekki samböndin en já við lifum af.  En væri ekki sniðugt að staldra við og geyma tækin í töskunni eða bara heima, prófa að tala saman og ekki síst að tala við börnin okkar. Þau þurfa nefnilega lífsnauðsynlega á því að halda !

22 September 2014

Hvenær á barnið að byrja að borða mat?

Þetta fyrsta blogg mitt fjallar um málefni sem foreldrar ungra barna velta oft fyrir sér. Tilefnið til þess að mér finnst þetta mikilvægt umfjöllunarefni, er að mér finnst ég alltof oft heyra frá foreldrum og lesa um það á spjallsíðum að fólk er alveg ringlað hvaða ráðum þau eigi að fylgja þar sem það virðast vera svo margar og misvísandi ráðleggingar varðandi þetta. Það sem knýr mig ennfremur til að láta í mér heyra, er að mæður eru að fá "ráðleggingar" um að minnka og jafnvel hætta brjóstagjöf löngu áður en það er tímabært. Já hvenær það er tímabært að hætta brjóstagjöf er svo efni í annað blogg en að sjálfsögðu er það eingöngu mál móður og barns og engum öðrum kemur það við - og hana nú!

Nú hef ég fylgst með þessum ráðleggingum í laaaaaaangan tíma.... Bæði sem mamma fjögurra barna í 24 ár (hóst hóst...) og sem heilbrigðisstarfsmaður í jafnlangan tíma. Ég hef stúderað þetta mjög mikið og þar sem ég er svo mikill brjóstagjafanörd, þá ligg ég gjarnan yfir rannsóknum um nýjustu þekkingu í þessum málum. Þetta snýst vissulega um brjóstagjöf, vegna þess að þekkingin á því hversu brjóstamjólkin er dýrmæt næring, liggur að baki því að vita hvenær er fyrst þörf á annarri fæðu.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin ráðleggur að barn nærist eingöngu á brjóstamjólk og engum öðrum vökva eða fæðu, fyrstu sex mánuði ævinnar.  Þetta eru tilmæli frá árinu 2001, byggð á rannsóknum sem sýndu fram á það að barn gæti vaxið og dafnað á brjóstamjólk eingöngu og fengið öll þau næringarefni sem nauðsynleg eru til vaxtar og þroska fyrsta hálfa árið.

Það eru um 98% mæðra sem hefja brjóstagjöf á Íslandi en hlutfall þeirra barna sem nærist eingöngu á brjóstamjólk við sex mánaða aldur er einungis um 8%. Það segir okkur að um 90% barna er farið að fá aðra tegund af mjólk eða fasta fæðu við hálfs árs aldurinn. Það má samt ekki líta fram hjá því að á þessum aldri er um 74% barna ennþá á brjósti og það er nú býsna gott!
(Brjóstagjöf og næring ungbarna á Íslandi sem fædd eru 2004-2008 - Tölur frá embætti Landlæknis)

En hvenær er þá réttur tími til að fara að gefa barni aðra fæðu? 


  • Á að færa aldurinn í ráðleggingum niður í 4 mánaða? 
  • Er gott að halda sig við núverandi leiðbeiningar?

Ég veit ekki hinn heilaga sannleika í þessu og gef mig ekki út fyrir að vita það. Hér eru bara hugleiðingar mínar byggðar á þeirri þekkingu sem ég hef aflað mér. Ég vann tíu ár sem heilsugæsluhjúkrunarfræðingur og kom meðal annarra að því að endurskoða bæklinginn Næring ungbarna, sem var þá löngu tímabært. Hann er löngu orðinn úreltur aftur og þær ráðleggingar sem í honum standa þarf að uppfæra. Þarna á ég sérstaklega við ráðleggingar um hvað barnið á að fara að borða og eru þessar hrísmjölsgrauta-ráðleggingar löngu úreltar. Það er svo efni í enn annan pistilinn og ég kem að því síðar. Ég leyfi mér að fullyrða að sumir heilbrigðisstarfsmenn, bæði læknar og heilsugæsluhjúkrunarfræðingar þurfa líka að sinna betur endurmenntun og uppfæra sína þekkingu.
We have always done it this way 
er hættulegasta setning sem hægt er að hugsa sér hvort sem það er í heilbrigðisfræðslu eða öðru í lífinu. Ef við förum eftir þessu þá stöðnum við og það verður engin framþróun. Þekking er nauðsynleg og rannsóknir á heilbrigði skipta sköpun í þróun í ráðleggingum.

Svíar breyttu ráðleggingum sínum um það hvenær ætti að fara að gefa smábörnum fyrstu fæðuna. Þeir höfðu ráðlagt eingöngu brjóstagjöf í sex mánuði eins og Alþjóða heilbrigðisstofnunin gerir en breyttu sínum ráðleggingum í að foreldrar ættu að fara að gefa fasta fæðu við fjögurra mánaða aldur. Þetta var gert á grundvelli þess að nánast enginn heilsugæsluhjúkrunarfræðingur væri lengur að ráðleggja foreldrum það að fara að borða við sex mánaða aldur. Það voru þá fagleg rök það!
Þetta leiddi til þess að tíðni brjóstagjafar snarféll í Svíþjóð og foreldrar fóru að gefa börnum sínum að borða enn fyrr eða um þriggja mánaða.

Melting þriggja til fjögurra mánaða barna er engan veginn tilbúin fyrir fasta fæðu, hvað þá sterkjuríka fæðu eins og graut - sem hefur verið ráðlagt sem fyrsta fæða barnsins. Það vantar Amylasa sem er nauðsynlegur til þess að brjóta niður sterkju og melta fæðuna. Þessum þroska nær melting ungbarna ekki fyrr en nálgast sex mánaða aldurinn og það er þá ekki svo galið að hinkra aðeins, hvort sem barnið er á brjósti eða nærist á þurrmjólk.

Það er alltaf verið að rannsaka þessa þætti og það er líklega enginn einn sannleikur í þessu og ráðleggingar breytast frá einum tíma til annars. Það var gerð stór rannsókn á Íslandi og niðurstöðurnar sýndu að mæður sem gefa barni sínu eingöngu brjóstamjólk fyrstu sex mánuðina, gefa barni sínu marktækt meiri brjóstamjólk þegar það er 5 - 6 mánaða en þær mæður sem gefa barni sínu eingöngu brjóstamjólk í fjóra mánuði og gefa eftir það ábót samhliða brjóstagjöfinni. Þau börn sem að fengu viðbót við fjögurra mánaða aldur voru með hærri járnbúskap en þau sem fengu eingöngu brjóstamjólk en engu að síður var seinni hópurinn með fullnægjandi járnbúskap sem styður það að brjóstamjólkin ein getur nægt barni þann tíma.

Mér finnst skynsamlegasta aðferðin sem ég hef kynnt mér, að barnið sé tilbúið að fara að borða aðra fæðu þegar það getur setið upprétt, getur tekið sjálft upp fæðu sem er sett fyrir framan það og sett hana upp í sig og kyngt henni. Þetta er aðferð sem hefur verið kölluð Barnið borðar sjálft eða Baby led weaning og hér er hægt að lesa meira um hana !
Ráðleggingar mínar til ykkar kæru foreldrar eru að fylgja hjartanu því ekkert barn er eins og þið þekkið ykkar barn best. Meðan barnið dafnar vel og er ánægt liggur ekki á að fara að gefa því fasta fæðu og alls ekki of snemma. Lesið ykkur til og aflið áreiðanlegra upplýsinga og takið svo upplýsta ákvörðun um hvað hentar ykkar barni.

kærar kveðjur

Ingibjörg







21 September 2014

Barnið okkar - Ný bloggsíða

Góðan og blessaðan daginn!

Nú hef ég ákveðið að byrja að blogga um allt mögulegt sem viðkemur börnum, næringu, svefni, þroska og mörgu sem varðar börn og fjölskyldur þeirra. Það er svo margt sem kemur upp í umræðunni á netinu sem mér finnst að eigi erindi lengra og þurfi að fjalla betur um. Ég nefni sem dæmi ráðleggingar um svefn og næringu sem mæður fá í heilbrigðiskerfinu. Mig langar að opna umræðuna og fjalla um málin eins og þau koma mér fyrir sjónir. Það getur alveg orðið umdeilt en ég hef engra hagsmuna að gæta nema hagsmuna barnanna sjálfra. Það sem ég hef að leiðarsljósi er að styðjast við nýjustu þekkingu hvers tíma og velta upp umræðu um málefni sem brenna á fjölskyldum ungra barna. Til að þetta verði lifandi og skemmtilegt langar mig að biðja ykkur að hjálpa mér að finna skemmtilegt og þarft umræðuefni. Það má senda mér e-mail á brjostagjof@gmail.com

kær kveðja

Ingibjörg