06 October 2014

Tími kominn til að staldra við?


Tilefni þessarra pistils er að velta því fyrir sér hvort að tæknin og hraði nútímans sé að hafa svo mikil áhrif á okkur sum, að við gleymum kannski því allra allra mikilvægasta.                                          

Já hvað er það mikilvægasta? 

Er það ekki að rækta gott samband við sína nánustu og umvefja börnin sín ást og umhyggju? Það vakti mig til umhugsunar að skoða samskipti barna og foreldra úr fjarlægð, annarsvegar á veitingahúsum og svo í barnadeild bókabúðar þar sem ég var stödd með stelpuna mína.
Í fyrra tilfellinu var það móðir sem sat við sama borð og um tveggja ára dóttir hennar, á kaffihúsi.    Ég segi sat við sama borð en ekki að hún hafi verið með dóttur sinni á staðnum. Hún var nefnilega fjarverandi - í Ipad, allan tímann sem ég sá þær þarna. Öðruhvoru staldraði hún við og fálmaði eftir skeið til að mata barnið, sem alls ekki vildi meira. Ég heyrði hana ekki segja eitt orð, svo upptekin var hún í spjaldtölvunni.  Stelpan var með tómlegt yfirbragð og sagði ekkert heldur. Eitt skiptið rölti hún í burtu og mamman tók ekki einu sinni eftir því. Nú veit ég ekkert um þessar mæðgur og vonandi er þetta einsdæmi í þeirra samskiptum, við skulum vona það.

En... afskiptaleysi á fyrstu æviárum barnsins sérstaklega, getur haft langvarandi og skaðleg áhrif. Það er nefnilega ekki nóg að sinna líkamlegum þörfum barna, þau þurfta heilmikla ást og stöðuga athygli og styrkingu frá okkur foreldrunum til að nærast andlega og verða sjálfstæðir og öruggir einstaklingar.

Hitt tilfellið var í bókabúðinni og það var aðeins skárra fyrir það barn, þar sem pabbinn var með þar og sinnti barninu en mamman var algjörlega fjarverandi í símanum pikkandi í þann hálftíma sem ég var þarna. Ég hef líka séð svona samskipti eða samskiptaleysi hjá pörum á veitingastöðum, pikkandi tómum augum og gleyma að tala saman....gleyma að lifa.

Við fullorðna fólkið lifum það af, kannski ekki samböndin en já við lifum af.  En væri ekki sniðugt að staldra við og geyma tækin í töskunni eða bara heima, prófa að tala saman og ekki síst að tala við börnin okkar. Þau þurfa nefnilega lífsnauðsynlega á því að halda !