Brjóstagjöf

Upphaf brjóstagjafar

Ef að barn er lagt húð við húð móður sinnar strax eftir fæðingu eða a.m.k. fyrstu tvo tímana og er látið þar óáreitt eru miklar líkur á að barnið finni sjálft farveg sinn að brjóstinu og sé farið að drekka strax á fyrsta klukkutímanum eftir fæðingu ( Moore,E.R. 2007 )
Barnið er lagt bert á bera húð móður sinnar, milli brjósta  og ofarlega á bringu hennar eins fljótt og mögulegt er. Barnið liggur á bringu móður, byrjar svo smámsaman að lyfta höfðinu og leita eftir því hvar geirvartan er.
Mjakar sér smámsaman í átt að henni og kemst þangað að lokum opnar munninn og byrjar að sjúga. Þetta eru meðfædd  viðbrögð.


Kostir fyrir móður (húð við húð umönnun)

Það er gott tækifæri til að tengjast barninu strax, svo eru minni líkur á andlegri vanlíðan og fæðingarþunglyndi ef að móðir er mikið með barn í fanginu fyrstu dagana. Streita minnkar og bæði móðir og barn ráða betur við aðstæður. Bæði móðir og barn finna minna fyrir sársauka. Það gengur líka betur að hefja brjóstagjöf og móðir á auðveldara með að lesa í merki barnsins.

 


Áhrif á brjóstagjöf

Snerting móður og barns hefur áhrif á losun Oxytocins (brjóstagjafahormón). Börnin komast fyrr á brjóst. Með því verður meiri mjólkurframleiðsla. Þau fara oftar á brjóst sem skilar sér í lengri brjóstagjöf í heildina.

 

Fyrstu klukkustundirnar

Þá er mikilvægt að skapa næði - móðir og barn fái að ráða fram úr þessu saman í friði. Ljósmóðirin bíður gjarnan með mælingar og þrif til að skapa þetta næði. Það er mikilvægt að barnið fari á brjóst sem fyrst til að fá broddmjólkina og koma öllu ferlinu af stað. Broddurinn er dýrmætasta næringin, stútfullur af mikilvægum vítamínum, steinefnum, sykrum og mótefnum. Með hátt prótín og kolvetnainnihald en minna af fitu en fullmótuð mjólk. Magnið af broddi er lítið í upphafi ( 7-10 ml. í fyrstu skiptin – eða 2-3 tsk.) Barnið fæðist með varabirgðir, þarf lítinn vökva fyrstu dagana. Eftir því sem það sýgur oftar, því fyrr  myndast mjólkin en mjólkin “kemur” oftast á 3-4 degi. (ef fyrsta barn, annars fyrr). Þá finnur móðirin fyrir fyllitilfinnig og mjólkin streymir fram. Mamman finnur oft fyrir þessu losunarviðbragði sem eins og seiðing í brjóstinu.
Ábótagjöf  er oftast óþörf á þessum fyrstu dögum og lítil ábót getur haft mikil áhrif. Hún getur dregið úr mjólkurmyndun og haft þau áhrif á að barnið sé skemur eingöngu á brjósti og heildarbrjóstagjöf verði styttri. Ábótargjöf getur líka veikt varnarkerfi  meltingarvegar barnsins og aukið þar með líkur á sýkingu.


Hvað á barnið að drekka oft ? Hversu lengi og hvað drekkur það mikið?

Eins oft og barnið vill ( að lágmarki x8/sólarhring) og algengt 8-10x /sólarhring. Eina undantekningin á því að leyfa barninu alveg að ráða, er ef að barnið sefur of mikið. Þá þarf að vekja barnið til að drekka á um 3ja tíma fresti nema það er í lagi að það sofi aðeins lengri dúra á næturnar án þess að vera vakið.
Barnið stjórnar líka lengd gjafarinnar, þ.e. meðan barnið er að sjúga þá er það enn að drekka. Margar mjög langar gjafir (1 ½ klst.)á sama degi geta samt bent til að barnið sé ekki með virkt sog og fái kannski ekki nóg. Þá borgar sig að fá ljósmóðurina ykkar eða brjóstagjafaráðgjafa til að skoða það með ykkur, oft þarf bara lítið til að barnið nái að drekka betur eins og að laga stöðuna eða nota brjóstakreistun í gjöfinni til að auka flæðið.
Meðalgjöf er frá 30-60 mínútur og styttist með aldri barns.
Það magn sem að barnið er að drekka er misjafnt eftir gjöfum en eins og áður sagði er það lítið fyrstu dagana (7-15 ml. í gjöf) x 5-6/dag en eykst fram að 10. degi þegar á að vera komin full framleiðsla ( 60 – 90 ml. í gjöf) x 8-10/ dag.
Bæði brjóstin eru oft gefin í sömu gjöf í upphafi. Þá drekkur barnið eins mikið og það þarf að drekka af öðru áður en boðið hitt. Sumar mæður eru alltaf bara með annað brjóstið í gjöf – aðrar alltaf bæði. Svo í næstu gjöf þá er boðið það brjóst sem hætt var á síðast, sérstaklega ef stutt er frá síðustu gjöf. Samt er það þannig að þegar barnið byrjar að sjúga aftur, framleiðist alltaf meiri mjólk.
Barnið ræður yfirleitt lengdinni sjálft, sleppir þegar það er búið. Fyrst í gjöfinni eru hendurnar upp að andliti, barnið með krepptar hendur. (þetta er merki um svengd) Barnið opnar augun í upphafi gjafar, drekkur og kyngir ört – pása. Þetta sogmynstur er endurtekið í gjöfinni. Munið að í pásunni er barnið samt að örva til meiri framleiðslu! Smámsaman hægist á og pásurnar lengjast. Slaknar á útlimum og barnið verður slakara og loks sleppir brjósti. Þá er gjöfinni lokið.


Aðskilnaður móður og barns

Það geta verið margar ástæður fyrir því að móðir og barn eru aðskilin í upphafi eins og  keisarafæðing eða veikindi móður eða barns. Nú er það þó þannig að eftir keisarafæðingu, fær mamman oftast barnið beint í fangið. Það er líka alltaf reynt að hafa þennan tíma sem stystan og barnið komist sem fyrst í fang móðurinnar. Ef að það er ekki hægt þá er mikilvægt að barnið sé húð við húð í fangi maka eða fæðingarfélaga. Mikilvægt að biðja um að barninu sé ekki gefin ábót nema læknisfræðilegar ástæður séu fyrir því.
Þegar barni er gefin ábót, lengist í næstu brjóstagjöf og það verður ekki nóg örvun til að framleiðslan haldist við. Sérstaklega ef gefið oft. Fyrstu klukkustundirnar mikilvægar. Skiptir máli að barnið komist sem fyrst á brjóst ef mögulegt er.
Fyrstu vikurnar sem barnið er á brjósti, eru mjög mikilvægar þar sem þú og barnið þitt eruð að læra alveg nýja færni. Eftir nokkrar vikur verður brjóstagjöfin auðveldari og bæði þú og barnið verðið búin að læra betur inn á þetta alltsaman. Þegar barnið drekkur oft fyrstu vikurnar, er það að hjálpa til við að auka mjólkurframleiðsluna hjá móðurinni. Staða barnsins við brjóstið skiptir miklu máli til að vel gangi. Best er að barnið liggi með sinn maga við þinn og opni munninn vel til að taka sem mest af brúna svæðinu undir geirvörtunni upp í munninn. Það á ekki að vera sárt að gefa brjóst. Treystu á þína eigin tilfinningu en ef að þú þarft hjálp við að leggja barnið á brjóst, leitaðu þá eftir aðstoð.


Dagur 1 – Barnið er oftast vel vakandi eftir fæðinguna í 1-2 klukkutíma og því fyrr sem barnið fer á brjóst, því betra. Það hvetur til þess að mjólkurmyndunin fari vel af stað, barnið fær broddmjólkina sem er allra fyrsta næringin, stútfull af næringarefnum, mótefnum, vítamínum og vaxtarþáttum. Magnið sem barnið þarf í fyrstu gjöfunum er mjög lítið eða 7-14 ml. (2-4 teskeiðar). Eftir þennan fyrsta vökusprett, sofnar barnið og fyrsta daginn er barnið oftast mikið sofandi. Best er að hafa barnið næst sér og gefa því að drekka þegar það losar svefninn og sýnir merki um að vera svangt ( hendur upp að munni, höfuð leitar í báðar áttir, hendur og fætur fara á hreyfingu) og barnið drekki að lágmarki á 3-4 tíma fresti. Þennan fyrsta sólarhring sefur barnið þó oft mikið og er ekki óeðlilegt að það drekki 5-8 sinnum. Ef að barnið er mjög syfjað og það sefur lengur en 4 klst. getur verið nauðsynlegt að vekja barnið, skipta á því, hafa léttklætt og strjúka bakið til að það vakni betur. Það er alveg eðlilegt að barnið væti bara eina til tvær bleiur þennan fyrsta sólarhring og fyrstu hægðirnar koma oft fljótlega eftir fæðingu. Þær eru mjög dökkar, næstum svartar og eru oft kallaðar barnabik.

Dagur 2 – Flest börn drekka mjög ört á öðrum degi. Það er eins og fyrsti dagurinn sé oft rólegur til að undirbúa mömmuna undir næsta dag! Barnið getur drukkið 8-12 sinnum í 10 – 40 mínútur hvert skipti. Gjafirnar geta líka verið lengri eða upp í 1 ½ tíma en svo langar gjafir geta verið mikið álag á geirvörturnar og það getur borgað sig að reyna að hafa gjafirnar aðeins styttri og gefa þá fljótt aftur til að minnka álagið á brjóstin þessa fyrstu daga. Þessar tíðu gjafir á öðrum degi koma oft á óvart en barnið veit alveg hvað það er að gera. Það er ekki að nota þig sem snuð eins og einhver getur sagt þér, heldur er barnið að vinna að því að auka framleiðsluna ( best er að reyna að nota ekki snuð meðan brjóstagjöfin er að komast af stað, eða 3-4 vikur ). Barnið á að væta um tvær bleiur og kúka u.þ.b. tvisvar sinnum þennan sólarhring. Hægðirnar eru enn nokkuð dökkar. Mjólkin er oftast ekki komin í brjóstin neitt að ráði en barnið er alltaf að fá einhverja næringu og hvetja til aukinnar framleiðslu með því að drekka. Auk þess er barnið fætt með aukavökvaforða sem endist því í flestum tilvikum þangað til mjólkin kemur á 3-4 degi. Þess vegna er ekki góð hugmynd að gefa barninu ábót (þurrmjólk) þessa fyrstu daga. Það þarf oftast ekki á því að halda nema læknisfræðilegar ástæður séu fyrir því.

Dagur 3 – Barnið þitt á að drekka oft. Á þessum degi getur þú byrjað að finna fyrir aukinni mjólkurmyndun og þú getur tekið eftir því að barnið kyngi oftar. Það er eðlilegt að barnið missi aðeins af fæðingarþyngdinni en byrjar oft að þyngjast aftur fljótlega, flest eru búin að ná henni á 10. degi og sum fyrr.  Eðlilegt að barnið væti u.þ.b. þrjár bleiur, kúki í um þrjár bleiur og liturinn er farinn að lýsast á hægðunum. Það getur hjálpað að mjólka aðeins fram dropa af brjóstamjólk áður en barnið er lagt á, þetta auðveldar oft að barnið komist á brjóstið. Notaðu endilega tímann sem barnið sefur, til að leggja þig og reyna að sofna. Þetta bætir upp skort á nætursvefni og hvetur til aukinnar mjólkurmyndunar. Mikilvægt að gleyma ekki að borða til að halda kröftum og svo fer orka í að búa til mjólk í brjóstunum. Gott að drekka vel af vökva og þá er vatnið besti drykkurinn.

Dagur 4- Barnið ætti að vera satt og ánægt ef að það drekkur á 2-3 tíma fresti. Stundum drekkur barnið örar eða nokkur skipti í röð og dottar á milli. Þetta eru kallaðar keðjugjafir og eru alveg eðlilegar. Nú ætti mjólkurflæði að vera farið að aukast verulegar og sumar konur finna fyrir stálma í brjóstunum á 3-4 degi. Stálmi stafar af auknu blóðflæði til brjóstanna og bjúg sem orsakast af því að frumuvökvinn leitar út í brjóstvefinn. Það getur verið erfitt fyrir barnið að ná nógu góðu taki á brjóstinu ef að það er mikill bjúgur. Þá er gott að þrýsta með fingurgómunum hringinn í kringum gervörtuna og halda takinu í um 15 sekúndur og færa svo fingurna þannig að farið sé allan hringinn. Þetta minnkar oft þrýstinginn og fær geirvörtuna til að koma betur fram. Besta ráðið til að minnka stálma er að barnið drekki nógu oft. Ástandið gengur yfir á 2-3 dögum. Blautar bleiur og hægðir aukast dag frá degi, á fjórða degi má reikna með 4-5 blautum bleium og álíka af hægðum. Hægðirnar eru karrígular og linar, oft vatnskenndar. Magarúmmálið er ennþá lítið en magnið sem barnið drekkur í hverri gjöf hefur aukist. Mjólkin meltist hratt og barnið verður auðveldlega svangt fljótt aftur. Hægt er að miða við að barnið sé um 10 – 20 mínútur á hvoru brjósti en það er líka eðlilegt að það taki lengri tíma.

Dagur 5 – Nú ætti brjóstagjöfin að vera farin að ganga nokkuð vel. Margar konur finna fyrir eymslum og jafnvel smá sársauka fyrstu dagana. Sársauki í gjöf sem varir lengur en bara fyrstu mínúturnar, getur bent til þess að barnið sé ekki að taka rétt.

Dagur 5-10 - á um 10 dögum fer framleiðslan í að vera orðin nokkurnveginn það sem hún verður áfram í magni. Það er alveg eðlilegt að það taki lengri tíma en á um 10-14 dögum ætti framleiðslan að vera orðin 600-900 ml. á dag eða um 60-90 ml í hverri gjöf. Barnið ætti að drekka á um 2-3ja tíma fresti eða 8-10 gjafir á sólarhring.

No comments: