Barnið borðar sjálft

Barnið byrjar að borða

Það eru alltaf tímamót þegar litla barnið byrjar að smakka á einhverju öðru en mjólk.
Foreldrar og aðrir aðstandendur eru oft farin að hlakka óskaplega til að gefa litla barninu eitthvað að borða. Þetta er alveg skiljanlegt þar sem það er svo félagslegur þáttur í allri okkar tilveru að borða saman. Barnið er stundum farið að sitja til borðs með fjölskyldunni í sínum stól og horfir á eftir hverjum bita. Þetta er hluti af þroska og það að taka eftir því sem aðrir gera, verður hluti af því að læra það sama og verða smámsaman þátttakandi í máltíðum fjölskyldunnar.
Það er misjafnt hvenær þessi stund rennur upp og oft veltir fólk því fyrir sér hvenær er tímabært að byrja. Þetta er oft þegar barnið fer að nálgast hálfa árið því þá fer það einmitt að sýna þessi merki um að hafa áhuga á mat og vera tilbúið til að prófa fyrstu fæðuna. Alþjóða heilbrigðisstofnunin mælir með brjóstamjólk sem einu fæðu barnsins fyrstu sex mánuði ævinnar svo fremi sem barnið sé að fá næga mjólk til að vaxa og dafna. Þetta er ekki regla heldur viðmið sem byggist á rannsóknum sem sýnt hafa fram á að brjóstamjólk getur nægt börnum þennan tíma en eftir það eru meðfæddar járnbirgðir oftast ekki nægilegar og barnið getur þurft auka járn úr annarri fæðu. Næringin í brjóstamjólkinni heldur þó áfram að vera jafngóð og allir þeir þættir sem voru verndandi gegn sjúkdómum sem og ónæmisþættir halda áfram að vera til staðar og vernda barnið.
Það er heldur ekki heldur þar með sagt að öll börn sem nærast eingöngu á brjóstamjólk hafi nægilegar járnbirgðir í fulla sex mánuði, það er alltaf verið að rannsaka þessa þætti og ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda miða við nýjustu rannsóknir. En mörg börn eru líka farin að fá aðra mjólk til viðbótar eða sum þeirra hætt á brjósti fyrir þennan aldur og geta ýmsar ástæður legið þar að baki. Það er þó nokkur veginn sama hvort barn er á brjósti eða ekki, það gildir það sama um hvenær það er tilbúið að fara að borða fasta fæðu.

Hvenær má byrja?
Almennt má segja að börn séu tilbúin að fara að borða, þegar þau eru farin að sitja upprétt með stuðningi í háum barnastól, eru farin að vera þátttakendur í máltíðum og geta sjálf tekið upp fæðu sem sett er fyrir framan þau og sett upp í sig án þess að hún komi út aftur.  Önnur viðmið eins og að barnið sé a.m.k. búið að tvöfalda fæðingarþyngdina og það sé farið að styttast milli mjólkurgjafa, eru ágætis viðmið en samt er gott að hafa í huga að það getur líka verið merki um vaxtarsprett þannig að það er gott að svara því með auknum gjöfum í nokkra daga og sjá hvort barnið sýnir enn merki um að mjólkurgjafirnar nægi ekki. Það er ekki ráðlagt að börn fari  að smakka fasta fæðu fyrr en í fyrsta lagi eftir 17 vikna aldur vegna þess að fyrr er meltingin ekki tilbúin til að taka við fæðu og melta hana og viðbragðið sem að ýtir fæðu út úr munninum er enn of sterkt. Það er oftast ekki fyrr en á sjötta mánuði sem að þau eru reiðubúin til að geta fært fæðu frá fremri hluta munnsins í aftari og svo kyngt.
IMG_5630
Hvað er verið að tala um, barnið borðar sjálft?
Við erum vön því að þegar barn fer að borða þá gefum við því fyrst hrísmjölsgraut og svo grænmetis- og ávaxtamauk. Þetta var áður sagt að væri besta aðferðin þar sem grauturinn væri auðmeltanlegur og maukinu væri svo auðvelt að kyngja. Foreldrið ræður þá alveg ferðinni hvað varðar magn og hvað fer ofan í barnið. Þetta getur skapað streitu í samskiptum við barnið á matartíma því að oft erum við búin að ákveða visst magn og leggjum áherslu á að barnið klári úr skálinni þó að það sé kannski búið að fá nóg en auðvitað höfum við áhyggjur af því að barnið fái nóg. En hugsið bara að þegar þau eru á brjósti þá stjórna þau sjálf magninu, stundum bara stuttir sopar og stundum langar gjafir. Sjálf erum við líka misjafnlega svöng og höfum ekki alltaf jafnmikla lyst.

Hugmyndin af því að láta borða sjálft er að mauka ekki ofan í barnið og mata það heldur leyfa barninu sjálfu að handleika fæðuna og setja hana upp í sig. Þetta á sér erlenda fyrirmynd en aðferðin er kennd við Gill Rapley en hún var verkefnisstjóri fyrir Barnvæna stefnu UNICEF í Bretlandi.  Það var þó ekki á vegum UNICEF sem þetta verkefni var unnið heldur vann hún sem heilsugæsluhjúkrunarfræðingur og var það hluti af meistaraverkefni hennar að rannsaka þess aðferð, sem henni sem móður fannst mjög athyglisverð. Hún þróaði aðferðina út frá niðurstöðunum rannsóknarinnar og komst m.a. að því að börn ættu ekki að byrja að borða fyrr en þau geta sjálf sett fæðu í munninn án aðstoðar foreldranna. Hún fann út að þessum þroska ná börn venjulega um 6 mánaða aldur, kannski fyrr og stundum seinna. Rapley sá  að með því að leyfa barninu að ráða ferðinni (baby led weaning) þá urðu matmálstímarnir skemmtilegir og áreynslulausir. Hún gaf út bók um aðferðina og hefur víða haldið fyrirlestra um efnið. Með því að ráða ferðinni, stjórnar barnið frá upphafi hversu mikið það borðar, verður nýjungagjarnara á bragð og áferð og borðar fljótlega sama fjölskyldumat og aðrir.
Kostir við aðferðina
Þegar barnið tyggur fæðuna losnar munnvatn og meltingarensím sem hvetja til meltingar en það gerist síður þegar þau kyngja mauki. Þjálfun kjálkanna við að tyggja er líka mikilvæg en við að borða graut og mauk reynir lítið á kjálkavöðvana. Einnig reynir þetta á hreyfiþroska bæði grófhreyfingar og ekki síður fínhreyfingar. Það er einmitt kjarni aðferðarinnar: ekkert mauk, engir klakabakkar, ekki matvinnsluvélar eða töfrasprotar til að mauka, enginn hrísmjölsgrautur eða einkennilegt grænt grænmetismauk.... heldur bara sami matur og öll fjölskyldan borðar. Markmiðið með BBS er að barnið geti matast sjálft af fæðu sem hentar aldri, byrjað á einföldum og fáum tegundum en fjölbreytnin eykst dag frá degi, barnið ræður alveg ferðinni. Auðvitað velur foreldrið hvað er sett fyrir framan barnið en barnið sjálft velur hvað það tekur upp og setur upp í  sig, hversu mikið og hvenær það vill ekki meira.
Meira má lesa um aðferðina í bæklingnum Barnið byrjar að borða. Pantanir á brjostagjof@gmail.com

No comments: